Lektorsmálið

Ráðning Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar við Háskóla Íslands

Sumarið 1986 greiddi heimspekideild Háskóla Íslands atkvæði um umsækjendur í stöðu lektors við deildina. Hlaut Mikael M. Karlsson 27 atkvæði, Erlendur Jónsson 9 atkvæði og Hannes H. Gissurarson engin. Nefndin sem mat hæfi umsækjenda mat þann síðastnefnda ekki hæfan til að gegna lektorsstöðu í heimspeki almennt en hann væri þó hæfur í að kenna námskeið í stjórnmálaheimspeki.[1]

,,Niðurstaða okkar var sú að Michael Karlsson væri hæfur til að gegna stöðunni eins og hún er auglýst og sömuleiðis Erlendur Jónsson, en með þeim fyrirvara þó að dómnefndin hafði ekki í höndum gögn um að hann hefði lagt fræðilega ástundun á siðfræði. Báða töldum við fortakslaust hæfa til að gegna lektorsstöðu í heimspeki almennt. Hvað Hannes varðar taldi dómnefndin hann hvorki hæfan til að gegna þeirri stöðu sem auglýst var né lektorsstöðu í heimspeki almennt, þar sem enginn vitnisburður var fyrir hendi um að hann hefði lagt stund á heimspeki eftir B.A. nám sitt við Háskóla Íslands. Dómnefndin taldi Hannes hins vegar hæfan til háskólakennslu í stjórnmálaheimspeki,“ sagði Eyjólfur Kjalar Emilsson við Morgunblaðið þann 26. ágúst 1986. Um það bil tíu árum áður hafði Mikael einnig verið metinn hæfastur umsækjenda um stöðu lektors og hlotið flest atkvæði á deildarfundi.

Í sama blaði segir Hannes H. Gissurarson að honum þyki augljóst að allar reglur um eðlilega og réttláta málsmeðferð hafi verið brotnar, blaðamaður hefur eftir honum

,,Ég get að vísu ekki tekið þetta álit mjög alvarlega; mér nægir að Oxford-háskóli mat doktorsritgerð mína tæka og luku prófdómararnir raunar á hana miklu lofsorði. Annars geta allir áhugamenn metið þetta sjálfir, þar sem hún kemur út í endurskoðaðri útgáfu í Bandaríkjunum næstkomandi febrúar.“ Ég hef að vísu ekki áhyggjur af sjálfum mér í þessu máli, heldur þeim þremenningum, sem skipuðu dómnefndina. Ég er sammála Platóni um það, að það er miklu verra fyrir menn að beita aðra óréttlæti, heldur en að verða fyrir því sjálfir.“

Svipuð orð lætur hann falla við blaðamann Þjóðviljans þann 20. ágúst 1986:

„Þetta dómnefndarálit er ranglátt og stenst ekki röklega. Ég hef engar áhyggjur af mínum hlut, en ég hef áhyggjur af þeim þremenningum sem sömdu dómnefndarálitið. Ég er sammála gríska heimspekingnum Platóni um að það sé miklu verra að beita aðra menn ranglæti en verða fyrír því sjálfur. Að öðru leyti tek ég þessu með heimspekilegri ró.“

Af orðum Hannesar að dæmi virðist að honum þyki skrif doktorsritgerðar um Hayek frá Oxford gera mann hæfan til kennslu í mörgum undirstöðugreinum heimspekinnar og að ansi illa hafi verið farið með hann.

Í september sama ár setur þáverandi menntamálaráðherra, Sverrir Hermannsson,  Hannes í stöðu rannsóknarlektors í sagnfræði til loka árs. Í Þjóðviljanum þann 18. september segir Hannes við blaðamann þegar hann er spurður hvort stöðuveitingin hafi verið sárabót við útreiðina sem hann fékk í heimspekideild

,, … menntamálaráðherra hefur sýnt að hann tekur aðeins ákvarðanir sem eru Háskólanum fyrir bestu. Hann fer ekki í pólitískt manngreinarálit og ég þarf ekki pólitískan stuðning til starfa í Háskóla Íslands.‘‘[2]

Hér viðrar Hannes heilbrigðar skoðanir. Ráðherra tekur aðeins ákvarðanir sem eru Háskólanum fyrir bestu og beitir sér ekki fyrir öðru, Hannes þurfi ekki neinu slíku að halda.

Vorið 1987 hefst svo ,,lektorsmálið‘‘. Auglýst var laus til umsóknar staða lektors í stjórnmálafræði við skólann. Háskóli Íslands sóttist ekki eftir stöðunni heldur var einfaldlega gert ráð fyrir henni í fjárlögum fyrir árið 1987, í frumvarpinu stendur þó ,,lektor í stjórnmálaheimspeki.‘‘ [3][4] Umsækjendur voru fimm, þeir Björn S. Stefánsson, Gunnar H. Kristinsson, Hannes H. Gissurarson, Ólafur Þ. Harðarson ásamt einum sem ekki vildi geta nafn síns.[5] Dómnefnd var skipuð þann 27. apríl þá um árið til að meta hæfi umsækjenda. Í henni sátu Ólafur Ragnar Grímsson prófessor, Svanur Kristjánsson, dósent og Gunnar Gunnarsson stjórnmálafræðingur. Ekki leið á löngu þar til Jón Steinar Gunnlaugsson hæstarréttarlögmaður mótmælti setu allra dómnefndarmanna fyrir hönd Hannesar. Bar Jón fyrir sig að nefndarmenn gætu ekki fjallað um umsóknina af óhlutdrægni vegna tengsla við umsækjendur. Sú beiðni var ekki tekin til greina en Ólafur Ragnar óskaði eftir að hætta í nefndinni og Sigurður Líndal lagaprófessor var skipaður í hans stað og Jónatan Þórmundssyni lagaprófesor bætt við hana sem fulltrúi rektors.[6] Niðurstaða nefndarinnar var svo kynnt ári eftir að hún tók til starfa. Segir í greinargerð Menntamálaráðuneytisins frá 30. júni 1988:

Niðurstaða dómnefndar var eftirfarandi: Björn S. Stefánsson var ekki talinn hæfur til að gegna stöðunni eins og hún var auglýst. Gunnar Helgi Kristinsson var talinn hæfur til að gegna stöðunni. Ólafur Þ. Harðarson var talinn vel hæfur til að gegna stöðunni. Umsækjandinn, sem óskaði nafnleyndar, sendi engin ritverk með umsókn sinni og var því ekki hægt að kanna hæfni hans. Hannes H. Gissurarson var talinn hæfur til kennslu og rannsókna á tilgreindu sérsviði, þ.e. samanburðarstjórnmálum, en nefndin taldi að ekki væri hægt að ráða það af námsferli hans né heldur hefði hann sýnt fram á það með ritverkum sínum, að hann hefði þá þekkingu á helstu kenningum og rannsóknaraðferðum í stjórnmálafræði að hann teldist hæfur til að kenna undirstöðugreinar hennar. Við atkvæðagreiðslu á deildarfundi félagsvísindadeildar hlaut Gunnar Helgi Kristinsson 1 atkvæði og Ólafur Þ. Harðarson 15 atkvæði. Einn seðill var auður.

Í auglýsingu um lektorsstöðuna voru tilgreindar tvenns konar hæfniskröfur. Í fyrsta lagi hæfni til að annast kennslu í undirstöðugreinum stjórnmálafræði. Í öðru lagi um hæfni til að annast kennslu og rannsóknir á íslenskum stjórnmálum innan þriggja tilgreindra sérsviða stjórnmálafræði. Hæfni í þessum greinum er talin felast í því að hafa á valdi sínu alla þætti rannsókna: kenningar, val rannsóknaaðferðar, gagnasöfnun, úrvinnslu og greinargerð.

Menntamálaráðuneytið getur ekki fallist á þá niðurstöðu dómnefndar um dr. Hannes H. Gissurarson, að hann hafi ekki sýnt fram á hæfni til að kenna undirstöðugreinar stjórnmálafræði. Maður sem lokið hefur doktorsprófi í stjórnmálafræði hlýtur að teljast hæfur til að kenna byrjendum almenn atriði fræðigreinarinnar. Doktorspróf Hannesar er frá einum virtasta háskóla veraldar, Oxford-háskóla á Englandi, þar sem ritgerð hans fékk lofsamlega dóma.

Til að fá fullvissu um þetta atriði leitaði menntamálaráðuneytið til dr. Johns Grays, kennara í stjórnmálafræði við Oxfordháskóla, en hann var leiðbeinandi dr. Hannesar meðan hann stundaði nám við skólann. Í svarbréfi dr. Grays segir orðrétt í íslenskri þýðingu: „Ég er fullfær um að staðfesta að hann (þ.e. Hannes H. Gissurarson) er hæfur til að kenna stjórnmálaheimspeki (political thougt) og stjórnmálafræði (empirical political science) bæði byrjendum og þeim sem lengra eru komnir. Hann hefur einstaka hæfileika og ég er ekki í nokkrum vafa um að hann er fyllilega undirbúinn undir þá stöðu sem um ræðir.“

Menntamálaráðuneytinu hefur einnig borist bréf frá Norman P. Barry, prófessor í stjórnmálafræði við Buckingham-háskóla á Englandi, en hann var um tíma einnig kennari dr. Hannesar. Norman P. Barry kveður dr. Hannes færan um að annast kennslu stjórnmálafræði á öllum stigum. Þess má geta að Barry er höfundur inngangsrits um stjórnmálafræði, An Introduction to Political Theory, sem nýtur almennrar viðurkenningar. Þess er ennfremur að geta að ráðuneytið hefur undir höndum ýtarlega umsögn um hæfni dr. Hannesar H. Gissurarsonar til að gegna lektorsstöðu í stjórnmálafræði frá dr. Gunnari Pálssyni, stjórnmálafræðingi, en hann er einn fárra Íslendinga sem lokið hafa doktorsprófi í fræðigreininni. Dr. Gunnar telur dr. Hannes tvímælalaust hæfan til að annast kennslu og rannsóknir á háskólastigi og kveður hann vel undirbúinn til að takast á við umrætt lektorsembætti. Dr. Hannes H. Gissurarson er hinn eini í hópi umsækjenda sem lokið hefur doktorsprófi í stjórnmálafræði. Þá er hann einn umsækjenda sem gefið hefur út heilt fræðirit á sviði stjórnmálafræði. Er þar um að ræða doktorsritgerð hans, sem kom út árið 1987 hjá kunnu bandarísku forlagi, Garland í New York, sem sérhæfir sig í útgáfu fræðirita fyrir háskóla. Stjórnmálafræði er tiltölulega ung fræðigrein og um eðli hennar og hlutverk hefur ekki skapast sú samstaða fræðimanna, hvorki hér né erlendis, sem einkennir flestar aðrar greinar vísinda og fræða. Það kemur glögglega fram í áliti dómnefndar og öðrum gögnum málsins að skoðanir núverandi kennara í stjórnmálafræði og Hannesar H. Gissurarsonar á eðli og hlutverki þessarar fræðigreinar eru um margt ólíkar. Það er að dómi ráðherra æskilegt að ólíkar skoðanir á fræðigreininni eigi sér málsvara á vettvangi Háskóla Íslands. Í félagsvísindum er sérstaklega mikilvægt að tryggja fjölbreytni og frjálsa samkeppni hugmynda.[7]

Hannes var skipaður lektor í stjórnmálafræði við félagsvísindadeild Háskóla Íslands þann 1. ágúst 1988 þvert á skoðanir dómnefndar, hún mat hann hvorki hæfan né fékk Hannes eitt einasta atkvæði um stöðuna. Í greinargerð menntamálaráðuneytis Birgis Ísleifs Guðmundssonar er Hannes álitinn hæfur og ekki bara það, hann er álitinn hæfastur allra. Ráðuneytið ber fyrir sig að maður sem lokið hefur doktorsprófi hljóti að teljast hæfur til kennslu í almennum atriðum fræðigreinarinnar sem er að sjálfsögðu algjör vitleysa. Ráðuneytið tekur svo upp á því að kanna hæfi eins og aðeins eins umsækjanda, Hannesar að sjálfsögðu. Aðrir umsækjendur sátu hér ekki við sama borð.

Ekki vildi þá svo betur til en að rætt var við fyrrum leiðbeinanda og kennara Hannesar, góðkunningja hans. Eins og kom fram að ofan hafði Jón Steinar Gunnlaugsson áður, fyrir hönd Hannesar, mótmælt setu nefndarmanna í dómnefndinni á þeim forsendum að þeir væru tengdir umsækjendum. Að lokum er látið falla að æskilegt sé að skoðanir Hannesar, og þá um margt, Sjálfstæðisflokksins, ,,eigi sér málsvara á vettvangi Háskóla Íslands.‘‘ Ekki er á öðru að sjá en að Hannes hafi fengið nokkuð öflugan ,,pólitískan stuðning‘‘.

Viðbrögðin við ráðningu Hannesar létu ekki á sér standa. Félagsvísindadeild og Stúdentaráð háskólands ályktuðu sitt í hvoru lagi um málið þann 7. júli. 1988. Sveinn Andri Sveinsson þáverandi formaður stúdentaráðs tjáði sig svo: ,,Með þessari skipun er verið að hunsa meginregluna um sjálfstæði Háskólans sem ég veit ekki betur en hafi verið órofin hingað til. Þetta er mjög varasöm  þróun“ og blaðamaður skrifar ,,Þetta mun vera í fyrsta skipti í langan tíma sem fylkingar félagshyggjumanna og Vöku standa saman í einhverju máli.”[8] Stúdentaráð gagnrýndi harðlega vinnubrgöð menntamálaráðherra. Háskólaráð samþykti eftirfarandi ályktun einróma á fundi sínum þann 8. júlí

1. Háskólaráð mótmælir harðlega veitingu menntamálaráðherra á stöðu lektors í stjórnmálafræði við félagsvísindadeild Háskóla Íslands. Með embættisgerð þessari hefur ráðherra brotið freklega þá meginreglu frjálsra háskóla að þar veljast menn til starfa á grundvelli hæfni til kennslu og rannsókna á tilteknu sérsviði.

2. Háskólaráð vísar á bug ásökunum menntamálaráðherra um vanhæfni og hlutdrægni dómnefndar við mat á umsækjendum um lektorsstöðu þessa, enda hefur hann ekki tilgreint neinar sérstakar vanhæfnisástæður og ber hann þó sönnunarbyrði fyrir staðhæfingum sínum.

Að beiðni félagsvísindadeildar var fulltrúi rektors skipaður í dómnefndina. Hann gegndi þar hlutverki umboðsmanns, gætti formsatriða og tryggði að fyllsta hlutleysis væri gætt við nefndarstörf. Þessu hlutverki gegndi prófessor Jónatan Þórmundsson varaforseti háskólaráðs.

3. Menntamálaráðherra hafnar þeirri niðurstöðu dómnefndar að Hannes H. Gissurarson hafi ekki sýnt hæfni til að kenna undirstöðugreinar stjórnmálafræði. Ráðherra telur að doktorspróf í stjórnmálafræði frá Oxford hljóti að sanna slíka hæfni. Staðreyndir málsins eru þær að Hannes H. Gissurarson hefur ekki stundað formlegt nám í stjórnmálafræði, hann hefur ekki tekið nein námskeið í þeirri grein svo vitað sé og hefur ekki sýnt með ritstörfum sínum að hann hafi þá þekkingu á helstu kenningum og rannsóknaraðferðum í greininni að hann teljist hæfur til kennslu í undirstöðugreinum hennar.

Það er ekki óvenjulegt að menn stundi doktorsnám á sérsviði sem fella má undir fleiri en eitt fræðasvið. Hliðstætt dæmi má nefna um afgreiðslu stöðu í efnafræði. Meðal umsækjenda var efnilegur sérfræðingur með doktorspróf í eðlisefnafræði, sem er ein af sérgreinum efnafræðinnar. Þessi umsækjandi var ekki talinn hæfur, vegna þess að undirstöðumenntun hans var í eðlisfræði en ekki efnafræði.

Undirstöðumenntun Hannes H. Gissurarsonar er í heimspeki og sagnfræði en ekki í stjórnmálafræði. Doktorsnám á tilteknu sérsviði fræðigreinar tryggir ekki að sá sem hlut á að máli hafi hlotið þá grunnmentun í fræðigreininni sem nauðsynleg er til kennslustarfa í undirstöðugreinum hennar.

4. Háskólaráð mótmælir þeim vinnubrögðum ráðherra að veita lektorsstöðuna á grundvelli meðmæla fyrrverandi kennara aðeins eins umsækjanda. Slíkar umsagnir eru ekki frá hlutlausum aðilum eins og ráðherra gefur í skyn, því að kennarar leitast eðlilega við að gera hlut nemenda sinna sem mestan. Ráðherra hefði getað með rökstuddu áliti hafnað dómnefndarálitinu og krafist þess að ný dómnefnd yrði skipuð.

5. Háskólaráð mótmælir þeirri tilraun ráðherra til að hafa áhrif á kennslu í Háskóla Íslands með þeim hætti að veita stöðuna á grundvelli sérskoðana eins umsækjanda á eðli og hlutverk stjórnmálafræði. Kennslufrelsi Háskólans hafa ráðherrar virt allt frá stofnun hans þar til núverandi ráðherra gefur út hina sögulegu greinargerð 30. júní s.l. Það er einsdæmi að ráðherra gefi út þá yfirlýsingu að kennarastöðu við Háskóla Íslands skuli veita á grundvelli sérskoðana.

6. Því miður hefur ráðherra kosið að beita valdi sínu þvert á anda þeirra laga sem nú eru í gildi. Hefur hann sýnt fádæma hroka í tilraun sinni til að kúga Háskólann.

Háskólaráð átelur ráðherra harðlega fyrir framgöngu hans í máli þessu. Auk þess sem þegar er talið hefur hann lítilsvirt Háskólann með því að tilkynning um stöðuveitinguna og bréf til rektors voru fyrst send fjölmiðlum, áður en þau bárust réttum aðilum.

7. Háskólaráð mun láta athuga lagalega stöðu Háskólans í þessu máli í því skyni að hnekkja þessari embættisathöfn ráðherra.

                                                                        08.07.88[9]

Stöðuveitingin var svo kærð af Eiríki Tómassyni fyrir hönd Ólafs Þ. Harðarson og Gunnars Helga Kristinssonar snemma árs 1989.[10] Umboðsmaður Alþingis lauk málinu með áliti þann 24. janúar 1990.[11] Hann sá ekkert athugavert við að ráðherra hafi aðeins leitað frekara  álita á hæfni eins umsækjenda né heldur að lög hafi verið brotin við ráðninguna.

Af því sem kemur fram að ofan er ljóst að Hannes Hólmsteinn Gissurarson var ráðinn við Háskóla Íslands fyrir tilstilli spillingar, þvert á hag skólans og vilja starfsmanna og nemenda. Í dag er Hannes prófessor við Háskóla Íslands.


[1] Morgunblaðið 29. ágúst 1986. Bls. 4.

[2] Þjóðviljinn 18. september 1986. Bls. 1.

[3] Þingskjal 1. F.d. lagafrumvarp. Lög nr. 95/1986, 109. löggjafarþingi. Bls. 221.

[4] Þjóðviljinn 22. október 1986. Bls. 5.

[5] Helgarpósturinn 5. maí 1988. Bls. 7.

[6] Morgunblaðið 1. júlí 1988. Bls. 24.

[7] Morgunblaðið 1. júlí 1988. Bls. 24.

[8] Þjóðviljinn 2. júlí 1988. Bls. 2.

[9] Árbók Háskóla Íslands fyrir háskólaárið 1988-1989.

[10] Þjóðviljinn 17. febrúar 1989. Bls. 9

[11] Opinberir starfsmenn. Lögmæti stöðuveitingar. Málsmeðferð við stöðuveitingu. (Mál nr. 87/1989) (http://www.umbodsmaduralthingis.is/ViewCase.aspx?Key=665&skoda=mal)